Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 6. - 9. júní 2025.
Hvítasunnan nálgast og þá er boðið til heimildamyndaveislu á Patreksfirði! Gæðastundir í Skjaldborgarbíói, skrúðganga, plokkfiskveisla, limbókeppni og vornóttin á Patreksfirði móta lykilviðburð fyrir heimildamyndahöfunda og áhugafólk um heimildamyndir á Íslandi.
Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.
Ókeypis er inn á allar heimildamyndirnar sem sýndar eru í Skjaldborgbíói sem staðsett er í hjarta bæjarins.
Dagskrá má finna hér: https://skjaldborg.is
Dagskráin verður fjölbreytt og auk heimildamyndaveislu verða kynnt verk í vinnslu, Kvikmyndasafn Íslands sýnir Áður óséðar perlur frá Patró og Surtur fer sunnan eftir Ósvald Knutesn og innsetningin Svepparíkið mun heilla gesti. Bingó, opnunarhóf með The Shits DJ setti og laugardagsgilli með DJ Silja Glømmi eru einnig ómissandi dagskrárliðir.
Tvö bransaerindi á hátíðinn verða haldin fyrir heimildamyndagerðarfólk; Martina Droandi fjallar um hvernig aðstandendur heimildamynda geta hagað hátíðaáformum sínum og Davide Abbatescianni veitir innsýn inn í heim kvikmyndablaðamennsku og hvernig best megi tryggja umfjöllun fyrir verk.
Lokaball Skjaldborgar fer fram í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni skrúðgöngu, verðlaunaafhendingu, kóngadansi og limbódanskeppni um hvítasunnu eins og hefð er fyrir en krakkarnir í Inspector Spacetime eru kyndilberar hömlulausrar gleði og brjálaðs stuðs! Þau sjá til þess að allir gestir hátíðarinnar fari heim með harðsperrur bæði í dans- og brosvöðvunum.
Hátíðarpassi veitir aðgang að
- allri dagskrá hátíðarinnar
- sjávarréttaveislu á sunnudagskvöldinu (kostar sér 4000kr)
- plokkfiskboði kvenfélagsins á laugardagskvöldinu (kostar sér 3000kr)
- partýi og bingói á laugardagskvöldinu (aðeins fyrir handhafa passa)
- lokaballi, verðlaunaafhendingu og limbókeppni hátíðarinnar (kostar sér 3500 kr)
- sundlauginni alla helgina (hver miði 1290kr)
- tjaldstæðinu alla helgina (kostar 3888kr fyrir 3 nætur)
Þessu vill engin missa af!