Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 17. - 20. maí 2024.

Enginn verður svikinn af heimildamyndaveislu, gæðastundum í Skjaldborgarbíói, skrúðgöngu, plokkfiskveislu, limbókeppni og vornóttinni á Patreksfirði.

Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Ókeypis er inn á allar heimildamyndirnar sem sýndar eru í Skjaldborgbíói sem staðsett er í hjarta bæjarins.

Dagskrá má finna hér: https://skjaldborg.is

Dagskráin verður fjölbreytt og auk heimildamyndaveislu verða kynnt verk í vinnslu, Kvikmyndasafn Íslands sýnir perlur úr safni Reynis Oddssonar og sérstakur fókus verður á stuttar heimildamyndir frá Palestínu. Bingó, uppistand með Heklu Elísabetu, úr uppistandshópnum Fyndnustu mínar, og partý með DJ teyminu Sóleyju og Sindra úr Seabear eru einnig ómissandi dagskrárliðir.

Lokaball Skjaldborgar fer fram í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni skrúðgöngu, verðlaunaafhendingu, kóngadansi og limbódanskeppni um hvítasunnu eins og hefð er fyrir en FM Belfast liðar mæta vestur með bakpoka fulla af litríkri og taktfastri danstónlist og slögurum úr öllum áttum! Í handfarangri verða þeir með míkrafón, slagverk og mikla stæla! Þessi farangur hefur átt viðkomu á klúbbum víða um heim og böllum um allt land með það eitt að markmiði að búa til brjálað partý og nú er komið að því að taka yfir heimili íslenskra heimildamynda Skjaldborgina, 450 Patreksfirði!

Hátíðarpassi veitir aðgang að

  • allri dagskrá hátíðarinnar
  • sjávarréttaveislu á sunnudagskvöldinu (kostar sér 4000kr)
  • plokkfiskboði kvenfélagsins á laugardagskvöldinu (kostar sér 3000kr)
  • partýi og bingói á laugardagskvöldinu (aðeins fyrir handhafa passa)
  • lokaballi, verðlaunaafhendingu og limbókeppni hátíðarinnar (kostar sér 3000 kr)
  • sundlauginni alla helgina (hver miði 1190kr)
  • tjaldstæðinu alla helgina (kostar 5325 fyrir helgina)

Þessu vill engin missa af!

Powered by Glaze